
Námsframboð
Skólinn skiptist í forskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólastig. KLS leggur áherslu á tækni og þjálfun nemenda, sköpun, jafnfram því að kynna þau fyrir sögu dansins og nýjar þróanir á sviði dansins. Jákvæð hvatning og uppbygging nemenda er lykil þáttur í starfi skólans.
Forskóli
FORSKÓLINN ER FYRIR NEMENDUR 3 ÁRA TIL 8 ÁRA OG ER UNDIRBÚNINGUR FYRIR GRUNNNÁM.
Forskólinn er opinn öllum og miðast aldur við fæðingarár. Markmiðið er að þroska og örva hreyfigreind, líkamsvitund og félagsþroska.
Aðal áherslan er að kynna klassískan ballet fyrir nemendum og leggja grunninn að frekara dansnámi.
Forskólinn tekur þátt í jólasýningu sem haldin er í sýningarsal Dansgarðsins og vorsýningu skólans sem er haldin í Borgarleikhúsinu. Þar fá nemendur tækifæri að sýna afrakstur vinnu vetrarins.
Kennsla forskóla KLS fer fram í danssal skólans í Mjódd, Álfabakka 14a, 3.hæð.

Grunnnám
GRUNNNÁMIÐ, FRAMHALD AF FORSKÓLANUM, ER FYRIR NEMENDUR 9 ÁRA TIL 15 ÁRA OG ER UNDIRBÚNINGUR FYRIR FRAMHALDSBRAUT.
Grunnnámið samanstendur af 7 stigum. Yngri stigin eru kennd í húsnæði KLS við Álfabakka 14a, 3 hæð, og eldri stigin í húsnæði KLS á Grensásvegi 14.
Áherslan er á faglega, þroskandi og uppbyggilega kennslu þar sem hver nemandi fær tækifæri til að þroskast og blómstra.
Við kennslu er stuðst við aðalnámskrá. Grunnnámið samanstendur af klassískum ballet, nútímalistdansi, samtímadansi, spuna, táskótækni og sögulegum dansverkum auk þess sem nemendur taka þátt í ýmsum sýningum og eru kynnt fyrir nýjum straumum og stefnum og þróun listdansins.
Nemendur fara á stig eftir getur frekar en aldri en aldurskiptingin er í grófum dráttum:
1. stig: 8 til 9 ára,
2. stig: 9 til 10 ára,
3. stig: 10 til 12 ára,
4. stig: 11 til 12 ára,
5. stig: 12 til 13 ára,
6. stig: 13 til 14 ára,
7. stig: 14 til 16 ára
Nemendur í grunnnáminu og forskólanum taka þátt í jólasýningu sem haldin er í sýningarsal Dansgarðsins og vorsýningu skólans sem haldin er í Borgarleikhúsinu. Þar fá nemendur tækifæri að sýna afrakstur vinnu vetrarins.
Eftir að hafa lokið grunnnáminu við KLS eru nemendur tilbúnir að hefja nám við framhaldsbraut í listdansi hvort sem það er á Klassískri listdanssbraut eða Nútíma/samtímalistdansbraut.

Framhaldsbraut
FRAMAHALDSBRAUTIN ER TVÍSKIPT; KLASSÍSK LISTDANSBRAUT OG NÚTÍMA- OG SAMTÍMA LISTDANSBRAUT. NÁMIÐ ER MJÖG GÓÐUR UNDIRBÚNINGUR FYRIR ÞÁ SEM ÆTLA SÉR Í LISTDANSNÁM Á HÁSKÓLASTIGI OG HAFA HUG Á AÐ HAFA ATVINNU AF GREININNI, EN NÁMIÐ GETUR EINNIG VERIÐ GÓÐUR UNDIRBÚININGUR FYRIR ÝMSAR AÐRAR STARFSGREINAR.
Miðað er við þriggja ára námstímabil sem skiptist í sex 16 vikna annir.
Nemendur sem hljóta inntöku á framhaldsbraut skulu hafa lokið grunnskólanámi og hafa stundað nám í dansi í einhverju formi eða búa yfir ótvíræðum dans hæfileikum og brennandi áhuga að mati stjórnenda og kennara skólans.Til þess að útskrifast þurfa nemendur að hafa náð fullnægjandi árangri og líkamlegri þjálfun samkvæmt námskrá skólans sem styðst við aðalnámskrá í listdansi, sem m.a. felur í sér danstækni í ballet, nútímadansi, samtímadansi, listdanssögu, danssmíðar og flr.
Nemendur á framhaldsbraut taka þátt í jólasýningu sem haldin er í sýningarsal Dansgarðsins og vorsýningu skólans sem haldin er í Borgarleikhúsinu. Einnig taka nemendur á framhaldsbraut þátt í ýmsum öðrum sýningum og viðburðum og má þá nefna, Unglist listahátíð ungs fólks, Vetrarhátíð, Safnanótt og flr. Lögð er áhersla á að nemendur séu kynntir fyrir þróun listdansins, nýjum straumum og stefnum og áframhaldandi námsleiðum og atvinnumöguleikum í greininni.
Framhaldsbrautin er ætluð nemendum á aldrinum 16-25 ára það eru þó undantekningar að bæði eldri og yngri stundi þetta nám í þeim tilfellum er áhugasömum bent á að hafa samband við skrifstofu eða senda tölvupóst á info@ballet.is.
